Wednesday, February 08, 2006

 
Frídagur í Búkarest.


Tókum það rólega í morgun enda mikil törn að baki. Vorum samt komin út um hádegi og kúrsinn settur á Ghencea kirkjugarðinn. Þar mættu okkur örggisverðir í hliðinu sem greinilega voru ekkert of hrifnir af því að fá útlendinga í kirkjugarðinn. Tala nú ekki um þegar við spurðum hvar leiðið hans Ceausescu væri. Upphófst mikið handapat og það eina sem við skildum var niet fotografia ! ! Síðan fengum við fylgd að leiðinu. Látlaust með steinkrossi en hlaðið borðum og blómum þannig að einhverjir hér heiðra minningu leiðtogans. Auðvitað vildum við taka myndir og Lalli rétti stráknum nokkur "lei" til að fá leyfi til þess. Skundar hann þá ekki með peninginn til hóps af öryggisvörðum sem stóðu í garðinum. Þegar allur hópurinn kom yfir til okkar hélt ég að nú yrði Lalli settur í steininn fyrir að reyna að múta stráknum. En nei, þá vildi yfirmaðurinn aurinn og við fengum að mynda eins og við vildum. Síðan fylgdi allur hópurinn okkur að leiðinu hennar Elenu og síðan að leiði sonar þeirra hjóna Nicos´ar.

Merkilegt hvað peningar geta haft mikil áhrif og hér gengur allt fyrir mútum og tipsi. Kirkjugarðuinn var fallegur eins og þeir eru ávallt hér um slóðir, Lalli ætlaði inní kapelluna á staðnum en hrökklaðist öfugur út því þá stóð þar yfir líkvaka og líkið uppivið í miðri kapellunni. Allan tímann var eins og hjörð af hundum væri að missa vitið í nágrenninu og stóð okkur ekki alveg á sama um það. Hér eru lausir hundar mikið vandamál enda gjörsamlega alls staðar. Japanskur túristi lést hér í nóvember eftir að hundur beit í sundur slagæð og heimamenn ræða mikið um það hversu hundarnir séu hættulegir.

Tókum leigubíl á næsta stað sem var Patriarhala kikjan.

Byggð 1654 á einni af örfáum hólum Búkarest borgar. Þessi kirkja hefur hýst höfuðstöðvar Rómversku réttrúnaðarkirkjunnar (Romanian Orthodox ?) alla tíð. Þarna var greinilega heilmikið ríkidæmi því við húsin sem stóðu á afgirtri lóðinni stóðu BMW´ar og aðrar glæsikerrur sem annars sjást varla hér í bæ. Fyrir utan kirkjuhliðið stóðu betlarar í röðum, ungar konur með börn, gamlar og hoknar konur, heil fjölskylda með litla krakka og fleiri og fleiri. Á alltaf erfitt með að ganga framhjá gömlu konunum. Sérstaklega hér þar sem ég hef grun um að ellilífeyrir ríkisins sé í kringum 65 evrur á mánuði. Hver getur mögulega lifað á því?
Ekkert útsýni var af þessari hæð enda varla um hæð að ræða þó hún sé kölluð það í túristabókunum. Við tókum síðan leigubíl (eins og alltaf) út að markaði sem heitir Oridea. Hann var mjög skemmtilegur en þar ægði öllu saman og mikið líf. Skiptist í inni og úti markað þar sem matur af öllu tagi var til sölu. Tók nokkrar myndir þarna inni en þá skyndilega birtust öryggisverðir og heimtuðu að fá að sjá myndirnar, linntu síðan ekki látum fyrr en ég eyddi út öllu sem ég hafði tekið á markaðnum. Eins gott að þeir sáu ekki myndirnar af grafreitunum, það hefði ekki verið vænlegt til vinsælda. Við settust síðan á kaffihús og þar ætlaði ég að mynda Valda og Skorra. Kemur þá ekki þjónustustúlkan á harðahlaupum og segir að það sé stranglega bannað að mynda þarna inni.
Maður hlýtur nú að spyrja sig hvað sé eiginlega að.....

Við erum að verða sérfræðingar í leigubílum og veljum alltaf bíla sem kosta ca 1 lei á kílómetrann eða um 20 krónur. Þeir eru aftur á móti flestir af tegundinni Dacia eða eitthvað þaðan af verra og í dag var ég þeirri stundu fegnust að komast út úr eðalvagninum þar sem ég horfði út um skottið og niður á götu úr aftursætinu, vel að merkja þetta var ekki station bíll ! ! Tók svo eftir því þegar út var komið að húddinu var ekki hægt að loka og annað frambrettið að detta af. Erum að hugsa um að hækka standarinn á bílunum uppí svona 2 lei kannski...
Annars förum við allra okkar ferða í leigubílum og líkar ferðamátinn vel, stundum er maður heppinn og lendir á bílstjóra sem talar ensku. Það er aftur á móti afar sjaldgæft. Þeir eru samt betri í ensku en Serbarnir þar sem svo til enginn gat tjáð sig á því tungumáli.

Fórum á Líbanskan veitingastað í kvöld og enduðum svo eins og flest hin kvöldin á sportbarnum á hótelinu. Þar eru nefnilega tvö pool borð, íslenski hópurinn æfir stíft og keppir grimmt innbyrðis. Reyndar er þetta svolítð ójafnt þar sem Skorri hefur forskot verandi keppandi í greininni. Við sem erum að byrja sínum samt snilldartakta og margar nýjar útfærslur á skotum.

Comments:
Mikið óskaplega er þetta strangt þarna úti, sérstaklega með myndatökur. Ég sé reyndar Lalla í anda, mútandi mönnum alveg hægri, vinstri;)
Hugsa til ykkar þarna úti og sendi kveðjur héðan úr frostinu á Fróni.
 
Ég er nú ekkert hissa á að Lárus láti alla hafa af sér peninga eftir skóburstunarævintýri hans í Istanbúl. Þar fengu drengirnir örugglega mánaðarlaunin margföld fyrir að eyðileggja rúskinnsskó. Hlakka til að fá að skoða ykkur "tágrönn" á breiðtjaldi.
 
Post a Comment



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?