Thursday, February 09, 2006

 
Heimferð og afmæli

Hópurinn heimsótti Valda og Sigrúnu í morgun til að skála í kampavíni við
húsbóndann sem náði þeim eftirsóknarverða áfanga að verða 40 ára í dag. Til
hamingju Valdi.
Sendi líka hamingjuóskir til Guðrúnar systur sem einnig á afmæli í dag!
Það var nú ekki verið að bruðla með afmælisdaga á Þelamörkinni hér í den! ! !
-------------
Viðburðarríkir dagar í Búkarest að baki og stefnan sett heim á leið.
Með okkur í vélinni til Amsterdam voru liðsmenn Steaua Bucarest í fótbolta
sem eiga að spila við eitthvert hollenskt lið í Evrópukeppninni. Urmull af
fréttamönnum og ljósmyndurum fylgdi liðinu þannig að það var nú ekki annað
hægt en að smella sér í hópinn og taka myndir af þeim sem virtust vera
vinsælastir. Þær koma á bloggið síðar með sérstökum kveðjum til
íþróttafríkanna í fjölskyldunni....

Örlítil seinkun á fluginu til Amsterdam kom ekki að sök þar sem skipulagið
hans Valda var til sérstakrar fyrirmyndar. Hann stjórnaði reyndar hvorki
veðrinu yfir Hollandi eða lendingunni sem var með versta móti ! ! !
Eftir stutt stopp í Amsterdam var flogið áfram til London og þar biðum við
í um 3 tíma eftir fluginu heim. Sit núna í vélinni á leið til Íslands,
alsæl með að hafa nennt að drösla fartölvunni með. Er búin að skrifa eina
fundargerð fyrir utan þetta blogg þannig að það er verið að nýta tímann.
------------------------------------
Að lokinni ferð er rétt að geta þess að ráðstefnan var einstaklega góð að
okkar mati og ekki síður var gaman að fá tækifæri til að sjá Búkarest og
það sem hún hefur uppá að bjóða. Það er alltaf sérstakt að verða vitni að
þeim mun sem er á lífskjörum á milli þjóða og í þessu tilfelli sló það mig
hvað tilveran í þessu landi er erfið.
Launin eru svo lág og fólk hefur litla möguleika á því að auka tekjur sínar
með eðlilegum hætti. Menntun er ekki metin til launa þar sam allir hafa svo
til það sama. Nú erum við búin að heimsækja Króatíu, Serbíu,
Svartfjallaland og Rúmeníu og það er enginn vafi í mínum huga að lífskjörin
eru verst í Rúmeníu.
Þarna hafa líka verið unnin óafturkræf spellvirki á tímum kommúnista þar sem
Búkarest var meira og minna rústað vegna duttlunga ráðamanna. Það er erfitt
að gera sér í hugarlund hvernig fólki líður sem er neytt til að yfirgefa
heimili sitt og í stað húss með garði á góðum stað er því úthlutað íbúð í
einni af óteljandi blokkarbyggingum sem hróflað var upp í þeim tilgangi að
hýsa sem flesta á sem minnstu svæði. Það er enda óhuggulegt að horfa yfir
endalausar raðirnar af litlausum, sálarlausum blokkum í úrhverfunum.

En þrátt fyrir skipulagsleg mistök fyrri tíma þá er Búkarest borg með ríka
sögu. Rúmenar eru gestrisnir og fúsir til að aðstoða fáfróða ferðalanga,
tala nú ekki um ef að þeim er gaukað nokkrum leium Rétt að geta þess að
nýbúið er að skipta um mynt í landinu og klippa 4 núll aftan af. Í gangi
eru bæði gamlir og nýjir peningar og það þurfti oft að hugsa sig vel um áður
en hlutur var greiddur hversu mörg núll ætti að stroka út. Peningarnir eru
líka úr einhverskonar plasti og því ekki hægt að rífa þá nokk sama hvað
maður reyndi.

Comments:
Velkomin heim og takk fyrir kveðjuna.
xxxG
 
Post a Comment



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?